VALMYND ×

Fyrsti dagur í samkomubanni

Nú er fyrsta degi í samkomubanni lokið og erum við býsna ánægð með hvernig til tókst, en alltaf er eitthvað sem kemur upp og þarfnast úrlausna. Veðrið spillti nokkuð fyrir gleðinni í dag og bauð ekki upp á mikla útivist, en margir hópar nýttu sér það þó og nutu útiverunnar eins og hægt var.

Á yngsta stiginu reyndi helst á að það tekur á að vera í sama rými allan þennan tíma.  Kennarar eru vakandi yfir því að brjóta upp daginn og hafa einhverja útivist á hverjum degi. Það reynist líka sumum nemendum erfitt að skilja það að þeir þurfa að ganga um annan inngang en þeir eru vanir, skórnir fara í aðra hillu, geta ekki farið í frímínútur, mat, íþróttir og verkgreinar svo fátt eitt sé nefnt.

Á miðstiginu gekk vel og unglingarnir okkar sem mættu í dag (8. og 10. bekkur) sýndu fullan skilning á þessum aðstæðum og voru samstarfsfúsir. Við höldum ótrauð áfram og trúum því að með þessum aðgerðum þá erum við að gera okkar til að hindra útbreiðslu veirunnar.

Við viljum þakka foreldrum/forráðamönnum fyrir jákvæð viðbrögð við skipulaginu hjá okkur og vitum að þetta gengur ekki án velvilja þeirra og að allir hjálpist að. Það er nauðsynlegt að allir virði það að ganga um þau anddyri sem ætlast er til, til að tryggja það að ef upp kemur smit að skólinn sé ekki allur undir og loka þurfi honum öllum og senda alla heim, nemendur og starfsmenn.

Okkur er gert að takmarka allar heimsóknir í skólann á meðan samkomubanni stendur og því er minnt á  að foreldrar bíði eftir börnunum í því anddyri sem barnið notar. Ef þarf að koma einhverju til barnanna t.d. nesti sem gleymdist þá er best að koma við hjá ritaranum með það og hann kemur því svo áleiðis.

Deila