VALMYND ×

Ólöf Máney söng til sigurs

Sigurvegararnir, Ólöf Máney Ásmundsdóttir og Eydís Eva Björnsdóttir. Skjáskot: María Hrönn Valberg.
Sigurvegararnir, Ólöf Máney Ásmundsdóttir og Eydís Eva Björnsdóttir. Skjáskot: María Hrönn Valberg.

Samvest, undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, var haldin s.l. föstudag. Þar kepptu 8 atriði um keppnisrétt í aðalkeppnninni, sem haldin verður í mars. Ólöf Máney Ásmundsdóttir varð hlutskörpust, en hún söng lagið Mad world, við undirleik Eydísar Evu Björnsdóttur. Þær stöllur koma frá félagsmiðstöðinni á Flateyri. Í öðru sæti urðu Pétur Ernir Svavarsson og Ólöf Einarsdóttir frá félagsmiðstöðinni Djúpinu á Ísafirði, en þau sungu lagið Find you og sá Pétur einnig um undirleik. Karolína Sif Stefánsdóttir frá félagsmiðstöðinni Tópas í Bolungarvík hafnaði svo í þriðja sæti með lagið Ég leitaði blárra blóma og lék Silfá Sigurðardóttir undir á píanó.

Dómarar þetta árið voru þau Beata Joó, Guðmundur Hjaltason og Magnús Traustason. Á meðan þau réðu ráðum sínum, söng Sigríður Elma Björnsdóttir fyrir gesti, en hún mun keppa fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á Akureyri dagana 19. - 21. apríl n.k.

Það verður gaman að fylgjast með sigurvegurum Samvest stíga á stokk fyrir hönd okkar Vestfirðinga dagana 4. - 5. mars n.k. í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og góðs gengis í lokakeppninni.