VALMYND ×

Fréttir

Skólanum færð gjöf

Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)
Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)

Síðastliðinn mánudag færði Þórdís Jensdóttir, fyrir hönd Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði skólanum 100.000 krónur að gjöf. Ákvörðun um gjöfina var tekin s.l. vor af fráfarandi stjórn félagsins, þar sem innheimta félagsgjalda hafði gengið vel undanfarin ár og var ákveðið að láta skólann njóta góðs af því. „Skólann vantar ýmis tæki og okkur þykir peningunum vel varið á þennan hátt,“ segir Þórdís Lilja Jensdóttir gjaldkeri félagsins sem afhenti Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra GÍ gjöfina fyrir hönd Foreldrafélagsins.
Ekki hefur verið ákveðið í hvað peningarnir verða nýttir, en þeim verður örugglega vel varið.

Opinn dagur

Á fimmtudaginn er 1. desember, fullveldisdagur Íslendinga. Þann dag er opinn dagur í skólanum og eru foreldrar og aðrir velunnarar hvattir sérstaklega til að líta við og fylgjast með skólastarfinu. Að sjálfsögðu eru aðstandendur velkomnir í heimsókn allt skólaárið, en sér í lagi þennan dag.
Skóladagurinn verður hefðbundinn og kennt samkvæmt stundaskrá.

Rýmingaræfing

Í morgun var rýmingaræfing í samstarfi við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar. Æfingin tókst nokkuð vel og tók u.þ.b. þrjár mínútur að rýma alla bygginguna. Ekki spillti veðrið fyrir þar sem það var stillt og gott.

Eftir æfinguna var farið yfir það sem hægt er að bæta. Gæta þarf að því að allar brunabjöllur virki, dyr séu vel opnanlegar og allar útgönguleiðir séu vel greiðar.
Rýmingaræfingar í skólanum eru einu sinni á ári og er nauðsynlegt að æfa rýmingarleiðir og viðbrögð allra starfsmanna og nemenda ef upp kemur eldur. Einnig er skipulagt sérstakt söfnunarsvæði þar sem allir safnast saman eftir bekkjum og framkvæma þarf manntal þegar út er komið, bæði hjá nemendum og starfsfólki.

Nemendur færa skólasafni gjöf

Rannveig Halldórsdóttir og Arnar Bragi Steinþórsson nemandi í 1. bekk tóku við bókunum og listaverki Ómars Karvels.
Rannveig Halldórsdóttir og Arnar Bragi Steinþórsson nemandi í 1. bekk tóku við bókunum og listaverki Ómars Karvels.

Undanfarin ár hafa nemendur gefið út bókina ,,Börn skrifa sögur og ljóð" og selt fyrir jólin en þetta árið var ákveðið að hvíla útgáfuna. Í staðinn var sjóðurinn sem til var nýttur til bókakaupa fyrir bókasafn skólans. Nemendur í 1. og 10. bekk komu færandi hendi á degi íslenskrar tungu og færðu Rannveigu Halldórsdóttur á bókasafni skólans 20 valdar bækur fyrir alla aldurshópa, ásamt listaverki eftir Ómar Karvel Guðmundsson, nemanda í 10. bekk.

Sjáumst í vetur!

Nú fer svartasta skammdegið í hönd og nauðsynlegt að allir sjáist í umferðinni. Munum eftir endurskinsmerkjunum og sjáumst í vetur!

Ný heimasíða

Afmælisdrengirnir þeir Árni Sverrir Sigurðsson og Kjartan Óli Kristinsson fengu þann heiður að opna nýja heimasíðu skólans.
Afmælisdrengirnir þeir Árni Sverrir Sigurðsson og Kjartan Óli Kristinsson fengu þann heiður að opna nýja heimasíðu skólans.

Ný heimasíða Grunnskólans á Ísafirði er formlega opnuð í dag, á Degi íslenskrar tungu. Það eru afmælisbörn dagsins, Kjartan Óli Kristinsson nemandi í 7. bekk og Árni Sverrir Sigurðsson nemandi í 10. bekk sem fá þann heiður að  opna hana.

Hugbúnaðarfyrirtækið Snerpa á Ísafirði,  Hálfdán Bjarki Hálfdánsson upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar og Helga Snorradóttir kennari unnu að gerð síðunnar.  Þessi nýja síða er aðgengilegri en sú gamla og felst það aðallega í því að fleiri fréttir birtast á forsíðunni, auðveldara er að setja inn myndir, skýrslur og fleira.  Það er von okkar að með nýrri og glæsilegri heimasíðu fjölgi heimsóknum á síðu skólans og með því verði auðveldara að koma upplýsingum og skilaboðum til þeirra er láta sig skólann varða.