VALMYND ×

Fréttir

Grunnskólinn á Ísafirði í 3. - 4. sæti í Brúnni

Nokkrir nemendur úr 10. bekk hafa undanfarnar vikur tekið þátt í samskiptaverkefni íslenskra grunnskólanemenda sem leggja stund á dönsku, sænsku og norsku og samlanda þeirra er sækja íslenskukennslu á Norðurlöndunum. Verkefnið kallast Brúin og er markmið þess að stuðla að notkun norrænna tungumála og samvinnu nemenda á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í gegnum skapandi viðfangsefni á neti.
Allir þátttakendur voru hvattir til að skila inn lokaverkefni og
bárust 60 slík frá 75 nemendum í 9 skólum.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 3. - 4. sæti með myndbandið Tónlistin okkar. Í myndbandinu kynntu krakkarnir tónlist sem eitt aðaláhugamál þeirra og spiluðu á píanó og fiðlu. Þátttakendur verkefnisins voru þau Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Maksymilian Haraldur Frach, Sara Björgvinsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir, undir leiðsögn dönskukennaranna sinna, þeirra Ölmu Frímannsdóttur, Guðríðar Sigurðardóttur og Kristínar Ólafsdóttur. Verkefni krakkanna má nálgast hér http://www.youtube.com/watch?v=Fn6uc88rnwo
og allar nánari upplýsingar um Brúarverkefnið má finna hér: http://leikar.net/bruin/2011/12/verdlaun-og-vidurkenningar/

Síðustu dagarnir fyrir jólaleyfi

Nú fara í hönd síðustu dagar fyrir jólaleyfi og verður kennt samkvæmt stundaskrá þessa viku.

Mánudaginn 19. desember er skreytingadagur og er skólatími frá kl. 8:00 til 12:00 þar sem hver bekkur er með sínum umsjónarkennara. Engar sérgreinar eru þann dag og mötuneytið er komið í jólaleyfi. Strætó fer kl. 12:15. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00.

Þriðjudaginn 20. desember eru svo litlu jólin og er skólatími frá kl. 9:00 – 12:00. Strætó fer í skóla kl. 8:40 og heim kl. 12:15. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00.

Þar með er komið jólaleyfi og hefst kennsla aftur miðvikudaginn 4. janúar 2012 samkvæmt stundaskrá.



 

Stelpurnar okkar

Nemendur G.Í. eru heldur betur að gera það gott í íþróttunum þessa dagana. Elena Dís Víðisdóttir, nemandi í 10. bekk og sundkona úr Sundfélaginu Vestra, hefur verið valin til þátttöku á Norðurlandameistaramóti unglinga í sundi sem fram fer í Laugardalnum um helgina. Hún náði lágmarki Sundsambands Íslands á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í 50 metra skriðsundi er hún synti vegalengdina á tímanum 27.76 sek. 
Sigrún Gunndís Harðardóttir, einnig nemandi í 10. bekk og knattspyrnukona úr BÍ hefur verið valin í úrtakshóp U-17 ára landsliðs Íslands og hefur verið á úrtaksæfingum í Kórnum og Egilshöll í Reykjavík.
Þá hefur Eva Margrét Kristjánsdóttir, nemandi í 9. bekk og leikkona KFÍ, verið að leika með U-15 ára landsliði Íslands undanfarið og vakið verðskuldaða athygli.

Bingó 10. bekkjar

10. bekkur heldur jólabingó í sal skólans n.k. laugardag, 10. desember, kl. 15:00.  Spjaldið kostar 500 kr. og lofa krakkarnir veglegum vinningum. Nú er um að gera að drífa sig með alla fjölskylduna og njóta þess að spila bingó.

Jólaföndur á unglingastigi

Í morgun var hefðbundin stundaskrá brotin upp á unglingastigi og boðið upp á jólatengda stöðvavinnu. Krakkarnir völdu sér viðfangsefni s.s. þæfingu, gluggaskreytingar, piparkökugerð, kertagerð, pappírsgerð, jólakortagerð o.fl.
Krakkarnir voru ánægðir eftir lotuna, enda gott að breyta til stöku sinnum. Myndir frá þessari vinnu eru nú komnar hér inn á síðuna.

Söngleikurinn Anní

Föstudagskvöldið 2. desember frumsýndi listaval skólans söngleikinn Anní í sal skólans. Sýningin var mjög vel heppnuð og skemmtu áhorfendur sér konunglega.

Önnur sýning verður í dag, sunnudaginn 4. desember kl. 16:00 og þriðja og síðasta sýning mánudaginn 5. desember kl. 20:00. Við hvetjum alla til að sjá þessa sýningu, sem er fyrir alla aldurshópa. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir 16 ára og yngri.

Dagur íslenskrar tónlistar

Í dag, fimmtudaginn 1. desember var dagur íslenskrar tónlistar haldinn hátíðlegur. Allar útvarpsstöðvar landsins spiluðu þrjú íslensk lög samtímis kl. 11:15 og sameinuðust Íslendingar við viðtækin og sungu lög til heiðurs íslenskri tónlist.

G.Í. lét ekki sitt eftir liggja og tók þátt í þessu skemmtilega verkefni. Heyra mátti söng úr flestum kennslustofum og setti það skemmtilegan svip á þennan góða dag. Lögin sem sungin voru í morgun eru Kvæðið um fuglana eftir Atla Heimi Sveinsson við
texta Davíðs Stefánssonar, Manstu ekki eftir mér, lag Ragnhildar Gísladóttur við texta Þórðar Árnasonar og Stingum af eftir Vestfirðinginn Mugison.



1. des. hátíð

Nemendur í 8. -10. bekk skólans hafa undanfarin ár sett upp leikrit sem sýnt hefur verið á 1. des. hátíð skólans. Söngleikurinn Anní  varð fyrir valinu þetta árið og verður hann frumsýndur fyrir unglingastig skólans föstudaginn 2. des. kl. 20:00 í sal skólans. 

Tvær sýningar verða fyrir almenning, sú fyrri sunnudaginn 4. des. kl. 16:00 og sú síðari mánudaginn 5. des. kl 20:00.

Leikstjórar eru þau Elfar Logi Hannesson, Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er 1000 kr. en 500 fyrir 16 ára og yngri.

Reglur varðandi skólahald

Skólahald er ekki fellt niður vegna veðurs nema brýna nauðsyn beri til. Þá er það tilkynnt í RÚV (Rás 1 og Rás 2), Bylgjunni og á heimasíðu skólans svo fljótt sem verða má.  Telji forráðamaður nemanda veður eða veðurútlit varhugavert þótt engin tilkynning hafi borist frá skóla varðandi skólahald, ber honum að meta hvort óhætt sé að senda nemandann í skólann. Slík tilvik ber að tilkynna til ritara strax að morgni.

 

Ef óveður skellur á meðan nemendur eru í skólanum þá er yngstu nemendum ekki hleypt heim nema í strætó/skólabíl, með foreldrum skólafélaga eða að foreldrar sæki þá eða tryggi börnum sínum örugga heimferð á annan hátt.  Nemendum er tryggð aðstaða í skólanum svo lengi sem þarf. 

Varðandi skólabíla fyrir dreifbýli og fatlaða, þá meta bílstjórar þeirra ástandið í þeim tilvikum sem skólastarfi er ekki formlega aflýst. Ef þeir telja akstur ótryggan eða varhugaverðan og heimferð e.t.v. í óvissu þá hafa þeir sambandi við sitt fólk og skólann.


Foreldrar eru hvattir til að sjá svo um að börn þeirra komi klædd miðað við aðstæður og hafi ávallt nauðsynleg gögn og útbúnað meðferðis.  Sjálfsagt er að benda á mikilvægi þess að nemendur noti inniskó.  Gólf eru stundum blaut, köld og óhrein, sérstaklega í námunda við anddyri.

Skólanum færð gjöf

Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)
Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)

Síðastliðinn mánudag færði Þórdís Jensdóttir, fyrir hönd Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði skólanum 100.000 krónur að gjöf. Ákvörðun um gjöfina var tekin s.l. vor af fráfarandi stjórn félagsins, þar sem innheimta félagsgjalda hafði gengið vel undanfarin ár og var ákveðið að láta skólann njóta góðs af því. „Skólann vantar ýmis tæki og okkur þykir peningunum vel varið á þennan hátt,“ segir Þórdís Lilja Jensdóttir gjaldkeri félagsins sem afhenti Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra GÍ gjöfina fyrir hönd Foreldrafélagsins.
Ekki hefur verið ákveðið í hvað peningarnir verða nýttir, en þeim verður örugglega vel varið.